Fréttir úr Skelluheimi

Góða kvöldið allir saman.  Það verður alveg að segjast að Frú Skella er ekki að standa sig í bloggskrifunum og það er ekki vegna þess að hún sé heima að rúlla upp bumbunni eins og þið gætuð eflaust haldið eftir síðustu skrif.  Skellan gáir að því vel og vandlega á hverjum morgni hvort að bumban sé komin niður á hné en hingað til hefur þetta allt saman sloppið. 

Lífið gengur annars sinn vanagang og allt þannig séð í lukkunarvelstandi fyrir utan að börnin á bænum eru í einhverju veikindabrasi sem sýnir sig í hinum ýmsu myndum eins og með hlaupabólu, ælupest og flensu.

Skellan ætlar annars að bregða sér á árshátíð með vinnufélögunum á föstudaginn og vonar heitt og innilega að veitt verði verðlaun fyrir getnaðarlegasta göngulagið.  Ef að sá titill  verður í boði er sko ekki spurning um að Frú Skella á mikla möguleika á að hreppa hann svo framlega sem dómnefndin fílar og kann að meta göngulag  stokkanda.  Til að Frú Skella hreppi pottþétt titilinn ætlar hún að mæta á háum hælum til að undirstrika yfirburði sína.  Gindargliðnunin hefur eitthvað verið að stríða Skellunni seinnipart dags að undanförnu þannig að hún verður í kjörstöðu á föstudagskvöld þegar getnaðarlegasta göngulag starfsmanna Leikskóla Reykjavíkur verður valið.  Hef að vísu ekki lagt fram ósk um að þessi titill verði veittur, held svona ykkur að segja að þegar sjáist til mín á göngu þá sé ekkert fyrir þessa háu herra í stöðunni en að verðlauna mig. 

 Á skírdag ætlar svo afkomendur Bjarna og Bjarnfríðar að hittast i miklu Hnallþóruboði sem án efa verður bara skemmtilegt.  Undanfarin ár hefur þessi sama fjölskylda hist á Þorrablóti Skellunni til mikilla leiðinda þar sem hún borðar ekki skemmdan mat en semsagt horfir þetta allt til betri vegar.  Þetta verður líka í fyrsta skipti sem Skellan mætir sem eina Bjarnfríðurin á svæðið sem er auðvitað ekkert nema óteljandi og endalaus heiður.Knús og kremj þar til næst


Er upprúllaður magi það sem koma skal hjá Skellunni?

Skellan heilsar bara þónokkuð hress í bragði enda í ágætisformi þessa daganna.  Verð samt að viðurkenna að göngulagið er allt annað en getnaðarlegt síðla dags en hvaða máli skiptir það svo sem. 

Fékk að vita um daginn að þó að ég væri þykk þá mætti ég nú eiga það að ég væri ekki með magan hangandi niður á læri.  Ekki ónýtt að fá svona upplýsingar og einmitt eitthvað sem manni langar að ræða komin sex mánuði á leið.  En þannig er þetta nú bara sumir kunna sig minna en aðrir í mannlegum samskiptum.  Ætla svosem ekki að velta mér uppúr þessu í bili en krossa bara fingur um að magaskrattinn minn þykki fari ekki að taka uppá þvi að hanga niður á læri í framtíðinni.  En ef úr því verður þá rúlla ég honum bara upp og girði hann ofaní buxur og málið er útrætt. 

Held samt að þetta hafi átt að vera hrós til mín (ætla að trúa því í bili) og ég mun því leggja mig fram við að kenna þessari einstöku manneskju aðrar leiðir til að hrósa í framtíðinni, en er samt alls ekki viss um að það takist.  Læt staðarnumið í bili enda ekki seinna vænna en að fara að rúlla upp undirhökunni fyrir svefnin knús þar til næst Skellan

Hæ og hó

Skellan heilsar og viðurkennir að hafa ekki verið að standa sig þegar kemur að bloggskrifum.  Skellan nennir ekki að tjá sig um heilsuna er eiginlega búin að fa nóg að ræða það í bili.  Síðustu skipanir frá doktornum voru að Skellan mætti vinna mest 50% en henni væri guðvelkomið að vinna minna.  En þrátt fyrir allt virðist litla krílið dafna vel og lætur vita af sér með kröftugum spörkum þegar sá gállinn er á henni/honum.

Annars var Skellunni boðið í mikið afmælisgeim um daginn þar sem örverpi þeirra hjóna Margrétar og Hreiðars hélt uppá 30 ára afmælið sitt í Karlakórsheimilinu á Selfossi.  Mikið var Skellan nú fegin að Karlakórinn tók ekki lagið þar sem kórsöngur er með því leiðinlegra sem Skellan heyrir.  Skellan ákvað að halda sig á mottunni í geiminu  en það var eingöngu vegna þessa að stór hluti gestana eru starfandi fangaverðir sem kunna án efa að taka á málunum ef þau verða of krassandi.  En burt séð frá því þá er það sem Skellunni finnst merkilegast er að litla krúttið í Stekkholtinu góða skuli vera orðin 30 ára og er hreinlega ekki viss um að það geti yfir höfuð staðist þar sem frú Skellan man eins og gerst hafi í gær þegar Frú Margrét stóð á þeim tímamótum og hélt feikna afmælispartý við markafljótsbrú. Og ekki eru nema nokkrir dagar eða í mesta lagi nokkrar vikur síðan að þetta litla kríli var með

v  Krullað hár og allt í flækju

v  Ber í nefinu

v  Borðaði helst bara grænar baunir

v  Fékk strumpaplötu í hausin

v  Gekk í fjólublárri peysu með englaermum

v  Og vigtaðist 14 kg

Já lífið getur verið skemmtilega skrýtið og tímarnir ansi fljótir að líða.  Skellan notar tækifærið og þakkar sinni ástkæru litlu systur kærlega fyrir sig.Kveð að sinni með sól í hjarta úr gerðinu Háa. 


Gleði Gleði Gleði

Góða kvöldið Skellan heilsar einstaklega glöð í bragði enda allt í lukkunar vel standi þessa daganna.  Skellan er loksins farin að vinna sem er bara frábært því eins og ég hef alltaf sagt ykkur þá er Skellan einstaklega heppinn með vinnufélaga.  Læknisvottorðið var að vísu ansi skrautlegt þar sem að í því stóð að Skellan mætti fara að vinna hægt og rólega uppí 50% og ef það gengi vel mætti hún fara uppí 75% vinnu en vottorðið verður endurskoðað 1.feb. 

Hægt og rólega uppí 50% er ekki alveg að henta Skellunni þannig að hún hefur farið heim eftir fjóra tíma en með fulla tösku af verkefnum sem hún leysir heima (en passar sig samt að vinna fara 50% á leikskólanum eins og henni var sagt hehe). En ekki getur Skellan að því gert hvað hún hefur mikið á sinni könnu eftir tæplega þriggja mánaða veikindi. 

Nú svo er búið að minnka aðeins blóðþrýstingslyfjaskammtinn þar sem Skellan var alltaf hálf meðvitundarlaus úr þreytu og sleni þegar hún tók lyfjaskammtinn um miðjan daginn.  Þegar betur var að gáð þá var blóðþrýstingurinn aðeins 85-50 á þessum tíma sem þótti fullmikið af því góða.  Eins og þið sjáið þá er semsagt allt á uppleið (nema blóðþrýstingurinn) og Skellunni líður margfalt betur þegar hún kemst svona út á meðal fólks var satt að segja að verða rúmlega leið á inniveru og sjálfri sér.Knús þar til næst

Gleðilegt árið kæru vinir

Góða kvöldið kæru vinir og gleðilegt ár.  Ég er ekki í nokkrum vafa um að árið sem fer í hönd verður það viðburðaríkasta og skemmtilegasta til þessa, ekki spurning.

Lífið er yndislegt söng Hreimur á þjóðhátíð í denn og þannig voru jólin hjá Háagerðisfjölsyldunni.  Mikið borðað og ýmislegt gert  sér til dundurs.  Frú Skella fékk þennan fína nuddhægindastól í jólagjöf sem gerir stormandi lukku.  

Nú eins og önnur jól  Skall  en eitt árið  þá gömlu sem lítið finnur fyrir því enda ekki degi eldri en 23 eftir tilkomu hægindastólsins.

Ármótin voru haldin í Stekkholtinu góða í fínum félagsskap og flugeldasprengingarnar voru með rúmlega langmesta móti þetta árið enda sprengiglaðir nágrannar í fanta formi.  Frábært að vinir manns eru aftur fluttir í hverfið sem gerir stemminguna svona líka kósý svo ekki sé meira sagt.

Árið virðist ætla vel af stað og Frú Skella bara orðin nokkuð brött hefur meira að segja verið að vinna aðeins en á morgun kemur í ljós hvort að fáist grænt ljós á vinnuna.  Frú Skella krossar fingur enda í einstaklega skemmtilegu starfi með skemmtilegu fólki sem hún saknar reiðinar býsn.

Í dag var svo kíkt á krílið í sónar og allt í þessu fína allt á sínum stað og krílið veifaði foreldrum sínum á mjög svo krútlegan hátt.  Fengum að vita að krílið kæmi annaðhvort til með að verða stelpa eða strákur  sem er auðvitað er bara frábært.  Og lendingadagur 24.maí 2008.

Skellan kveður að sinni og lætur heyra í sér fljótlega Knús á línuna og munið að vera góð hvort við annað


Bara allt að koma

Skellan heilsar í allt öðru en jólaveðri því eins og undanfarið er rigningarsuddi í borg óttans.  Lífið er nú aðeins orðið bjarta í lífi Skellunnar enda ekki seinna vænna áður en eitt ár í viðbót skellur á hana.  Er loksins búin að finna jólagjöf fyrir frumburðinn en það hefur verið mikill höfðuðverkur að undanförnu.  Þá er aðeins eftir að kaupa tvær gjafir eða réttara sagt eina þar sem ég er komin með aðstoðarmann sem sér um hina, ekki ónýtt það. 

Það gladdi ekkert smá hjarta Skellunnar áðan að sjá að nýja læknisvottorðið er stílað á 4. jan.  Ekki ónýtt að geta farið að vinna eftir áramótin.  Að vísu fylgdu fyrirmæli frá lækninum að staðan væri endurskoðuð 4. jan og þá tekin ákvörðun um framhaldið , en maður þarf ekki alltaf að lesa smáa letrið þegar maður lætur sig dreyma.  Hver veit nema að uppköst, prótein, háþrýstingur nú eða lágþrýstingur verði  bara allt eins og þá á að vera á nýju ári hver veit. 

Annars streyma jólakortin inn um lúguna þessa dagana sem minnir Frú skellu á að hún ætti aðeins að fara að spýta í lófana og fara að skrifa á sín eða jafnvel kannski að búa þau til til að byrja með.

Bið að heilsa í bili og í Guðana bænum farið varlega í umferðinni og allri jólaösinni. 

Knús á línuna

 

 


Jólin að bresta á

Góða kvöldið allir saman og velkomin i skelluheim

Heilsan er ykkur að segja öll að koma til skoðunin í morgun kom bara þokkalega vel út  svona miða við allt og allt.  Blóðþrýstingurinn er að nást niður, ógleðin á undanhaldi enda ekki seinna vænna þar sem bækurnar segja að þetta eigi að lagast eftir fyrstu þrjá mánuðna og nú eru vikurnar orðnar 17 hjá Skellunni og því betri heilsa vel þegin.  Ef allt gengur eins vel og í morgun má Skellan jafnvel fara að vinna strax eftir áramótin sem er bara skemmtilegt og spennandi enda glatað að vera í góðri vinnu sem maður getur ekki stundað.

Jólaundirbúningurinn gengur hægt í Skelluheimi en með þessu áframhaldi ætti hann samt að ná að klárast áður en klukkurnar hringja inn jólin.  Móðir Skellunnar á þar stóran þátt en hún hefur verið óteljandi og endalaust hjálpsöm í öllum veikindunum hvað varðar tiltekt, barnapössun og ekki má gleyma bakstrinum  og laufabrauðunum.  Já maður spyr sig hvar maður væri staddur ef maður ætti ekki svona góða að. 

Ætla að setja punktinn hér í bili knús á línuna og farið varlega í erli jólanna

 

 

 


En kyrrsett heima því miður

Góða kvöldið

Af frú Skellu er lítið skemmtilegt að frétta þessa dagana og er en kyrrsett heima því miður.  Mæðraskoðun dagsins var allt annað en góð en stundum er hlutirnir bara svona og lítið við því að gera.  Blóðþrýstingur í sögulegu hámarki, prótein í þvagi og Skellan eins og fyrri daginn á mörkunum að vera of þurr.  Ekki skemmtilegar niðurstöður en þetta hlýtur að fara að lagast allt saman enda bara ekki annað hægt.  Fékk svefnlyf hjá lækninum í dag sem ég ætla að prófa þangað til á þriðjudag en þá fer ég aftur í skoðun.  Með því er verið að vona að með aukinni hvíld náist þrýstingurinn niður.  Þá á að meta ástandið og ef það hefur ekki batnað til muna er ekkert annað í stöðunni en hvíld inni á spítala.  Vonandi kemur samt ekki til þess þar sem bóndinn á heimilinu er á fullu í prófum og stoð mín og stytta í jólaferð í útlöndum. 

Annars hefur þetta allt saman gengið áfallalaust í þessar sl. sex vikur.  Mamma hefur tekið stelpuna mikið svo og bakað, þrifið, skrúbbað og bónað heimilið ásamt því að luma á óteljandi og endalausum ráðum enda kona  þar á ferð með mikla reynslu. Tengdó hefur einnig hjálpað til eftir bestu getu sótt prinsessuna á leikskólan og boðið henni í heimsókn nú eða eldað fyrir heimilisfólkið. 

Ætla að láta þetta duga í bili og óska þess að þið eigið ánægjulegan desember og passið að láta ekki jólastressið fara með ykkur.

 


Á nýjum stað

Eins og þeir sem villast inná þessa síðu vita þá hefur frú Skella ákveðið að færa sig um set. Ástæðan er einfaldlega sú að lykiloðið á hinni síðunni er einungis vistað í tölvu eiginmannsins og sú talva eins og reyndar eiginmaðurinn eru verulega sjaldan heima sem hentar ekki vel eins og gefur að skilja.  Eftir að hafa reynt í þrígang að fá sent lykilorðið án þess að vera svarað ákvað frú skella að segja þetta gott og færa sig og hér er ég Smile.

 Húrra fyrir Sjálfsbjörg

Var ekkert smá ánægð um daginn þegar ég sá að Sjálfsbjörg ætlaði að hætta að reka og eiga íbúðir fyrir skjólstæðinga sína enda fengið neitun um aðstoð frá borginni til að mæta þungum rekstri. 

Þið megið ekki misskilja og halda að ég sé eitthvað vond það er sko ekki hugsunin.  Þegar ég útskrifaðist sem Þroskaþjálfi fyrir rúmlega sjö árum þá velti ég einmitt þessu fyrir mér og talaði að margra mati rúmlega nóg um þetta fyrirkomulag. 

Í mínum huga eiga hagsmunafélög ekki að standa í rekstri  við skjólstæðinga sína enda er það skýrt hlutverk ríkis og sveitafélaga.  Auðvitað hafa hagsmunafélögin farið út í þennan rekstur að nauðsyn við skjólstæðinga sína á þeim tíma þar sem ekkert annað var í stöðunni en í leiðinni tekið ábyrgðina af þeim sem eiga að sjá um þennan rekstur sem hafa þá hunsað  skyldu sína.

  Og eins og í öllum rekstri þarf maður að halda sig réttu megin við núllið þannig að þungur rekstur margra þeirra starfsstöðva sem rekin eru af hagsmunafélögum

 koma fyrst og fremst niður á skjólstæðingum þeirra sem þeir eiga ekki satt að berjast fyrir.  Hagsmunafélög fatlaðra hafa sko nóg að gera þó að þau þurfi ekki að standa í rekstri enda mörg óteljandi og endalaus baráttumál sem berjast þarf fyrir og létta þá í leiðinni álaginu af þessum einstaklingum og foráðamönnum þeirra sem þurfa að berjast eins og ljón fyrir að réttindi þeirra séu virt.

Ætla að láta þetta verða lokaorðin en ég árétta að auðvitað hafa hagsmunafélögin farið út í allan þennan rekstur af nauðsyn en það er bara ekki þeirra að sjá um hann.

Skellan kveður að sinni

 

 


« Fyrri síða

Um bloggið

skellan

Höfundur

Hanna Fríða
Hanna Fríða
Frú Skella er 36 ára gift þriggja barna móðir í borg óttans.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband